Erlent

Merkel og Hollande sammála um að Evrópa leysi eigin vandamál

Þrátt fyrir ágreining um margt eru kanslari Þýskalands og forseti Frakklands algerlega sammála um eitt. Það er að Evrópa muni sjálf leysa vandamál sín og geti ekki treyst á utanaðkomandi aðstoð við slíkt.

Þetta hefur komið fram í samtölum þeirra við fréttamenn á fundi G20 ríkjanna sem staðið hefur yfir í strandbænum Los Cabos í Mexíkó. Börsen fjallar um málið og vitnar í Francois Hollande Frakklandsforseta sem segir að hann og kanslarann greini á um margt en frú Merkel og hann séu samt sammála um að Evrópa verði að finna sínar eigin lausnir á vandamálum.

Angela Merkel kanslari Þýskalands tekur í sama streng og segir að Það sé orðið augljóst að allir beri ábyrgð á því að leysa sín eigin vandamál. Merkel bætir því við að leiðtogar evrusvæðisins hafi lofað öðrum leiðtogum á G20 fundinum að þeir muni leysa sín vandamál.

Í samtali við Reuters segir Hollande að lausnin komi ekki utanfrá. það eigi ekki að vera hlutverk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að bjarga skuldsettum evru-ríkjum. Að vísu sé sjóðurinn þegar í þremur þeirra en hann eigi ekki að vera baktrygging fyrir evrusvæðið í heild, að mati Hollande.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×