Erlent

Er Guðseindin í nánd?

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Þrálátur orðrómur er nú á kreiki í vísindasamfélaginu um að tilraunir kjarneðlisfræðinga CERN hafi borið árangur og að tilvist Higgs-bóseindarinnar hafi loks verið sönnuð.

Það var í desember á síðasta ári sem eðlisfræðingar hjá Samtökum Evrópu að kjarnorkurannsóknum (CERN) tilkynntu að traust sönnunargögn hefðu fundist sem bentu til tilvistar eindarinnar.

Vísindamennirnir hafa hvorki viljað tjá sig um orðróminn né um rannsóknarniðurstöður sínar frá því á síðasta ári. Þá var talið að nokkra mánuði myndi taka að vinna úr gögnunum.

Líklegt þykir að eðlisfræðingarnir hafi ákveðið að bíða með að kynna niðurstöðurnar þangað til í næsta mánuði en alþjóðleg ráðstefna kjarneðlisfræðinga fer fram í Melbourna í Ástralíu 4. til 11 júlí.

Stóri sterkeindahraðallinn á landamærum Frakklands og Sviss er stærsta vísindatilraun mannkynssögunnar.mynd/CERN
Rannsóknir vísindamannanna fara fram í Stóra sterkeindahraðlinum (LHC) en hann er staðsettur á landamærum Sviss og Frakklands. Þar er öreindum skotið saman á ógnarhraða í þeim tilgangi að framkalla áður óséðar eindir.

Higgs-bóseindin er ekki samsett úr smærri eindum og því er hún öreind. Þessi tegund einda er til grundvallar uppbyggingu alheimsins og er nauðsynlegur hluti staðallíkans eðlisfræðinnar. Higgs-bóseindin er eini hluti líkansins sem ekki hefur verið staðfestur með vísindalegri athugun.

Bóseindin hefur oft verið kölluð Guðseindin en hún útskýrir af hverju aðrar eindir — og þar með allt efni alheimsins — hefur massa.

Hægt er að sjá kynningarmyndband Fermilab um Higgs-bóseindina hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×