Erlent

Menntaðar danskar konur þjást jafnmikið af offitu og þær ómenntuðu

Ný rannsókn á vegum heilbrigðistofnunnar Danmerkur sýnir að í fyrsta sinn í nútímasögunni þjást hámenntaðar eða langskólagengnar konur jafnmikið af offitu og þær sem eru lítt menntaðar.

Fjallað er um þessa rannsókn í Berlingske Tidende. Þar segir að almennt hafi hlutfall danskra kvenna sem þjást af offitu vaxið frá 7,3% árið 1987 og upp í 13,6% árið 2010. Það sem hefur breyst mest hinsvegar er að árið 1987 voru þetta einkum konur sem voru aðeins með grunnskólapróf eða minni menntun. Árið 2010 var hlutfall þeirra kvenna sem lokið höfðu mennta- eða háskólaprófi hinsvegar orðið hið sama og hjá þeim sem höfðu litla menntun.

Knud Juel sem stjórnaði þessari rannsókn segir að þróunin hvað offitu kvenna varðar hljóti að vekja áhyggjur. Þá er hann einkum að líta til að hlutfall þeirra hefur nær tvöfaldast á síðustu 35 árum.

Hið sama gildir ekki um þróun offitu hjá dönskum karlmönnum þegar kemur að menntun þeirra. Rannsóknin leiddi í ljós að hlutfallið milli þeirra sem höfðu litla skólagöngu og voru háskólamenntaðir hafði ekki breyst á fyrrgreindu tímabili. Hinsvegar hafði offita meðal þeirra almennt aukist en þó ekki í sama mæli og hjá konunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×