Erlent

Orrustuþota Tyrkja var í alþjóðlegri lofthelgi

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
mynd/AP
Tyrkir hafa óskað eftir því að NATO-ríkin fundi til að ræða viðbrögð við því að Sýrlendingar skutu niður tyrkneska orrustuþotu síðastliðinn föstudag.

Tyrkir beita fyrir sig 4. grein stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins til að kalla ríkin til fundar. Samkvæmt henni geta NATO-ríki sem telja sér ógnað óskað eftir því að bandalagið fjalli um málið.

Tyrkneska þotan var skotin niður án nokkurra viðvaranna. Tyrkneski utanríkisráðherrann hefur fullyrt að orrustuþotan hafi verið á alþjóðlegu flugsvæði. Sýrlendingar hafa hins vegar neitað því og sagt hana hafa verið innan sinnar lofthelgi.

Þotan féll í Miðjarðarhafið við landamæri Tyrklands og Sýrlands. Flak þotunnar fannst í morgun eftir umfangsmikla leit en engar fregnir hafa borist af afdrifum flugmannanna tveggja. Tyrkneskir fjölmiðlar segja að flakið hafi verið á hafssvæði sem tilheyrir Sýrlendingum.

Tyrkir fullyrða að engin vopn hafa verið í þotunni. Um æfingarflug hafi verið að ræða þar sem verið var að kanna radarbúnað hersins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×