Erlent

Uppgötvuðu undarlegt sólkerfi

Túlkun listamanns á Kepler-36 sólkerfinu.
Túlkun listamanns á Kepler-36 sólkerfinu. Mynd: Harvard-Smithsonian Center for Astrophysics/
Stjörnufræðingar hafa uppgötvað afar sérkennilegt sólkerfi í um 1.200 ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Þar má finna tvær gerólíkar reikistjörnur, gasrisa og berghnött, á óvenju nálægum sporbrautum sem snúast á ógnarhraða um stjörnuna Kepler-36.

Vísindamennirnir uppgötvuðu sólkerfið þegar þeir rýndu í gögn úr Keplersjónaukanum en hann fylgist með yfir 150 þúsund stjörnum á himinhvolfinu í þeirri von um að mögulegar reikistjörnur gangi fyrir einhverjar þeirra — rétt eins og þegar Venus gekk fyrir sólina fyrir skömmu.

Stjarnan Kepler-36 líkist sólinni en er þó örlítið heitari og nokkrum milljörðum árum eldri. Innri reikistjarnan nefnist Kepler-36b og er bergreikistjarna. Hún 1.5 sinnum stærri en Jörðin og 4.5 sinnum þyngri. Reikistjarnan er í 17 milljón kílómetra fjarlægð frá stjörnunni og því er umferðartími hennar (eða ár) aðeins 13.8 dagar.

Ytri reikistjarnan er kölluð Kepler-36c og er gasrisi. Hún er 3.7 sinnum stærri en jörðin og 8 sinnum þyngri. Umferðartími hennar er 16 dagar.

Stjörnufræðingar reyna nú að átta sig á hvernig svo gerólíkir hnettir enduðu svo nálægt hvor öðrum en þetta þykir afar óvenjulegt. Í sólkerfinu okkar eru bergreikistjörnurnar nálægt sólinni á meðan gasrisarnir eru langt frá henni.

Hægt er að lesa um málið á Stjörnufræðivefnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×