Erlent

Mursi hvetur til áframhaldandi mótmæla

Mohammed Mursi
Mohammed Mursi mynd/AP
Leiðtogi herráðs Egyptalands, Hussein Tantawi, hermarskálkur, hefur óskað Mohammed Mursi, nýkjörnum forseta Egyptalands, til hamingju með sigurinn.

Mursi hlaut 51.73 prósent atkvæða og bar þannig nauman sigur úr býtum á mótframbjóðanda sínum, Ahmed Shafiq, fyrrverandi forsætisráðherra Egyptalands.

Formaður yfirkjörstjórnar Egyptalands tilkynnti um niðurstöður kosninganna en þær fóru fram um síðustu helgi. Síðan þá hefur kjörstjórnin ítrekað frestað því að kunngera úrslitin.

Þá var einnig opinberað að þó nokkur fjöldi ábendinga hefði borist um kosningamisferli. Það var þó mat kjörstjórnarinnar að aðeins 466 hefðu verið á rökum reistar og að þær hefðu ekki haft áhrif á lokaniðurstöðu kosninganna.

Mursi er frambjóðandi Bræðralags múslima en fjölmargir fylgismenn samtakanna eru nú samankomnir á Frelsistorginu í Kaíró.

Eftir að úrslitin voru kunngerð sagði Mursi að hann myndi berjast fyrir bættum hag egypsku þjóðarinnar. Þá hvatti hann fólk til að halda áfram að mótamæla og gefast ekki upp fyrr en herráð landsins afsali sér völdum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×