Erlent

Allir fá netfang hjá Facebook

BBI skrifar
Allir notendur Facebook hafa nýlega fengið netfang @facebook.com. Þetta er nýjung sem Facebook teymið tók upp á og vakti athygli í dag.

Hver einasti Facebook-notandi er með „about" síðu um sjálfan sig. Þar koma fram grunnupplýsingar um viðkomandi. Þessum upplýsingum getur maður svo breytt eftir eigin höfði. Þar er meðal annars dálkur fyrir netföng svo fólk geti deilt netfangi sínu með öðrum. Hér eftir verður sjálfgefna stillingin netfang @facebook.com í þessum dálki. Svo þurfa notendur að breyta yfir í eitthvað annað ef þá lystir.

Netföngin sem um ræðir eru ekki sérlega persónuleg. Dæmigert netfang hjá íslenskum einstaklingi væri 1615436894@facebook.com.

Þetta uppátæki Facebook hönnunarteymisins hefur hreint ekki vakið kátínu meðal fólks. Margir saka fyrirtækið um að ætla sér að fylgjast með póstsamskiptum fólks. Í frétt á CNN er facebook-teymið sagt vel þekkt fyrir klúðra-og-biðjast-afstökunar aðferð sína.

Aðstandendur síðunnar segja hins vegar að það hafi komið sér á óvart að fólk hafi verið reitt yfir þessari nýbreytni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×