Erlent

Fornleifafundur vekur furðu á Bretlandseyjum og víðar

Fornleifafundur í Cambridge héraði í Englandi hefur vakið mikla furðu á Bretlandseyjum og víðar í Evrópu.

Um er að ræða kvennmannsgröf frá fimmtu öld en það sem vakið hefur furðu er að kona þessi var grafin með fullvaxinni kú. Í umfjöllun BBC um málið segir að þetta sé í fyrsta sinn sem kýr finnst í fornri gröf í Evrópu. Áður hafa karlmenn fundist grafnir með hestum sínum en slíkt er þó frekar sjaldgæft. Þannig hefur aðeins 31 gröf fundist á Bretlandseyjum þar sem hestur var grafinn ásamt hinum látna.

Talið er að kona þessi hafi verið einhvers konar leiðtogi í því samfélagi sem hún lifði í. Á þessum tíma hafi kýr verið óhemjuverðmætar enda gefa þær af sér mat á hverjum degi. Konan hlýtur því að hafa verið vellauðug að auki og notið mikillar virðingar. Í gröfinni fundust einnig m.a. skrautmunir úr rafi, armbönd og viðamikill lyklahringur úr járni.

Það voru háskólastúdentar úr tveimur breskum háskólum sem fundu gröfina í saxneskum grafreit í Cambridge héraði en þar hefur verið unnið að fornleifarannsóknum um hríð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×