Erlent

Íslenskur selur sem tilheyrði bandaríska flotanum er dáinn

Íslenski útselurinn Gunnar dó í Þjóðardýragarði Bandaríkjanna í Washington í gærkvöldi en hann náði 38 ára aldri. Gunnar var eitt sinn í þjónustu bandaríska flotans og sinnti þar ýmsum vekefnum meðan á kalda stríðinu stóð.

Gunnar var hluti af sjávardýraáætlun flotans en hún gekk út á að nota gáfuð sjávardýr til að sinna ýmsum leynilegum verkum neðansjávar. Ferli hans í bandaríska flotanum lauk árið 1979 en fram að þeim tíma hafði hann verið staðsettur í flotastöðinni í San Diego.

Í frétt um málið í Daily Mail segir að Gunnar hafi m.a. lært að beita skrúfjárni, koma fyrir og fjarlægja ýmsan tækjabúnað, snúa hjólum á botnlokum og sækja hluti niður á sjávarbotninn en Gunnar gat verið 20 mínútur í kafi í einu.

Eftir að ferli Gunnars lauk í flotanum var hann fluttur í þjóðardýragarðinn þar sem hann lifði síðan. Fram kemur í Daily Mail að hann hafi orðið mjög langlífur en hann lifði í átta ár umfram meðalaldur útsela.

Gunnar eignaðist tvo kópa með öðrum útsel í garðinum en kóparnir hlutu nöfnin Kara og Kika. Þeir eru nú til sýnis í sjávardýragarði í New Jersey.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×