Erlent

Mikið af peningaseðlum á floti í indversku votlendi

Mikill fjöldi Indverja hefur svamlað um votlendi í Assam héraði eftir að fréttir bárust um að peningaseðlar væru á floti um allt í einni ánni þar.

Times of India fjallar um þessa uppákomu en um er að ræða Silsako votlendið sem þekkt er fyrir fjölbreytileika hvað fisktegundir varðar og því hefur fjöldi fiskimanna viðurværi sitt af veiðum í votlendinu.

Í upphafi vikunnar tóku að berast fréttir af því að mikið af 500 og 1.000 rúpíuseðlum væru á floti í einni ánni. Verðmæti þessara seðla er svipað og íslenskra þúsund- og tvö þúsundkalla. Fréttirnar bárust fljótt til nærliggjandi borgar og þúsundir borgarbúa streymdu til votlendisins í von um skjótfenginn gróða. Og raunar höfðu margir þeirra tvo til þrjá seðla upp úr krafsinu.

Sagan segir hinsvegar að fyrstu fiskimennirnir sem tóku eftir seðlum hafi náð allt að 50.000 rúpíum eða sem svarar til hundrað þúsund króna. Það er töluvert fé á þessum slóðum.

Yfirvöld í Assam hafa hinsvegar enga hugmynd um hvernig þessir peningaseðlar enduðu í votlendinu. Fyrsta verk þeirra verður að kalla til sérfræðinga frá bandarísku alríkislögreglunni FBI til að kanna hvort seðlarnir séu ekta eða falsaðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×