Erlent

Heilbrigðislöggjöf Obama stenst stjórnarskrá

BBI skrifar
Obama ærðist af gleði þegar niðurstaðan var ljós.
Obama ærðist af gleði þegar niðurstaðan var ljós.
Meirihluti Hæstaréttar Bandaríkjanna komst í dag að þeirri niðurstöðu að heilbrigðislöggjöf Baracks Obama stenst stjórnarskrá landsins. Því hefur verið varpað að þetta sé eitt stærsta mál dómstólsins í fjölda ára.

Fimm dómarar sögðu lögin standast stjórnarskrá en fjórir ekki. Því var mjótt á munum.

Dómstóllinn komst að því að Bandaríkjaþing hefði ekki farið út fyrir valdsvið sitt með því að setja lagaákvæði sem skylda landsmenn til að vera með heilbrigðistryggingu. Ákvæðin flokkist sem skattur og því standi lögin. Mikill fögnuður varð fyrir utan hús Hæstaréttar þegar niðurstaðan var kunngjörð og Obama sagði niðurstöðuna vera sigur fyrir landið og bæta lífskjör fólks.

Niðurstaðan þykir mikill pólitískur sigur fyrir Obama en setning laganna var eitt af forgangsverkefnum hans á sínum tíma. Hefði rétturinn fellt lögin úr gildi hefði Obama hlotið gríðarlegan mótbyr í forsetakosningunum sem fram fara í lok árs.

Mit Romney, mótframbjóðandi Obama segir lögin „starfa-morðingja" og skattahækkun sem auki við skuldir ríkisins. Hann hefur lofað að fella þau úr gildi nái hann kjöri sem næsti forseti. Kannanir hafa ítrekað sýnt að meirihluti landsmanna er á móti lögunum.

Umfjöllun BBC um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×