Erlent

Stefnir ríkinu fyrir að drepa fjöldamorðingja

Mohamed Merah hafði mikinn áhuga á kappakstri og bílum og birti myndbönd af sér á Youtube.
Mohamed Merah hafði mikinn áhuga á kappakstri og bílum og birti myndbönd af sér á Youtube.
Faðir fjöldamorðingjans Mohamed Merah hefur stefnt franska ríkinu fyrir að drepa son sinn. Merah varð alræmdur eftir að hann skaut sjö manns til bana í þremur árásum í Toulouse í Frakklandi fyrr á þessu ári. Hann var skotinn til bana af sérsveitum frönsku lögreglunnar eftir 32 tíma umsátur við heimili hans.

Meðal þeirra sem hann myrti voru þrír hermenn, kennari og þrjú börn. Merah skaut á fólkið þar sem hann sat á skellinöðru og tók ódæðin upp á myndavél. Málið vakti mikla skelfingu í Frakklandi enda morðin hrottaleg og svo virtist vera sem árásirnar beindust að hverjum sem væri, og þá skipti engu hvort um börn væri að ræða.

Faðir Merah stefndi ríkinu í dag í París og vill hann meina að það hafi ávallt staðið til að skjóta Merah til dauða í umsátrinu og það hafi verið gert til þess að friða stjórnmálamenn.

Faðir hans tilkynnti raunar strax um að hann myndi stefna ríkinu fyrir drápið. Við það tækifæri sagði þáverandi utanríkisráðherra Frakka, Alain Juppe: „Ef sonur minn væri væri svona skrímsli myndi ég halda kjafti og skammast mín."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×