Erlent

Obama ákveður að innflytjendur fái að vera

BBI skrifar
Barack Obama fyrirskipaði í dag að hætt yrði að flytja ólöglega innflytjendur á aldrinum 16 til 30 ára úr landi. Um 800.000 manns munu njóta góðs af þessari ákvörðun.

Svo að tilskipun Obama eigi við um einstakling þarf hann að hafa komið til Bandaríkjanna áður en hann varð 16 ára og hafa lifað þar síðustu fimm ár. Hann verður að hafa hreina sakarskrá og hafa gengið í framhaldsskóla.

Menn segja þessa ákvörðun vera útspil í kosningabaráttu Obama, en forsetaefnin keppa nú um atkvæði bandarískra þegna, m.a. fólks af erlendum uppruna.

Þessar nýju reglur tryggja innflytjendum ekki ríkisborgararétt heldur gera þeim kleift að öðlast tveggja ára atvinnuleyfi sem svo verður framlengjanlegt. Þar með verndar það ungt fólk sem annars gæti átt á hættu að vera sent brott frá Bandaríkjunum.

Ákvörðun Obama hefur valdið töluverðu fjaðrafoki. Sumir kalla hana svívirðilega misnotkun á forsetavaldinu. Aðrir fagna henni, ekki síst hagsmunasamtök innflytjenda.

Umfjöllun BBC um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×