Erlent

Fagna niðurstöðunni í grísku þingkosningunum

Leiðtogar á Vesturlöndunum og fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa fagnað niðurstöðunni í grísku þingkosningunum. Markaðir í Asíu voru í uppsveiflu í nótt í framhaldi af úrslitunum.

Flokkarnir Nýtt lýðræði og Pasok náðu naumum meirihluta á gríska þinginu í sögulegum þingkosningum þar í landi í gærdag. Þessir flokkar styðja samkomulagið sem gert var við Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um neyðarlánin til Grikklands og skilyrðin sem þeim fylgja.

Þegar öll atkvæði höfðu verið talin hafði Nýtt lýðræði hlotið tæp 30% atkvæða og 129 menn á þing en Pasok hlaut rúmlega 12% atkvæða og 33 þingmenn. Flokkurinn Syriza, sem vildi hafna samkomulaginu, hlaut hinsvegar tæplega 27% atkvæða og 71 þingmann.

Reiknað er með að Antonis Samaras leiðtogi Nýs lýðræðis hefji strax myndun nýrrar ríkisstjórnar í samvinnu við Pasok.

Töluverð uppsveifla varð á Asíumörkuðum í nótt þar sem Nikkei vísitalan í Japan hækkaði um tæp 2%. Þá styrkist evran gagnvart dollar og tunnan af Brent olíu hækkaði um dollar í viðskiptum í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×