Erlent

Taugatitringur á leiðtogafundi G20 ríkjanna

Mikill taugatitringur virðist vera á fundi G20 ríkjanna sem nú stendur yfir í Mexíkó. Jose Manuel Barroso forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins varð reiður þegar aðrir leiðtogar á fundinum gagnrýndu sambandið.

Barroso tók það óstinnt upp þegar sumir leiðtogar á fundinum sögðu að Evrópusambandið hefði ekki gert nóg til að leysa vandann á evrusvæðinu og hvöttu til markvissari aðgerða.

Barroso sagði að leiðtogar sambandsins væru ekki komnir á fundinn til að fá leiðsögn frá öðrum um lýðræði og hvernig þeir ættu að stýra efnahagsmálum sínum. Vandamálin væru ekki bara bundin við evrusvæðið heldur ætti allur heimurinn við samskonar vanda að glíma.

Robert Zoellick bankastjóri Alþjóðabankans tók undir gagnrýni leiðtogana á fundinum og segir að heimurinn bíði þess að Evrópa segi hvað hún hyggist gera til að leysa vandamál sín.

Skuldakreppan á evrusvæðinu er aðalumræðuefnið á fundinum en leiðtogarnir þar telja að hún ógni efnahagsmálum heimsins í heild.

Fundinum lýkur í dag og búist er við sameiginlegri yfirlýsingu leiðtoganna um hvernig taka beri á skuldakreppunni sem hrjáir Vesturlönd þessa dagana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×