Erlent

Mikil tedrykkja eykur hættu á krabbameini

BBI skrifar
Miklir tedrykkjumenn eru líklegri til að greinast með krabbamein í blöðruhálskirtli en aðrir. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem gerð var við Glasgow Háskóla.

Samkvæmt niðurstöðunum voru karlmenn sem drukku yfir 7 bolla af tei á dag um 50% líklegri til að greinast með krabbamein í blöðruhálskirtli. Þeir voru aftur á móti sjaldnar í yfirvigt og áttu sjaldnar við áfengisvandamál að stríða.

Vísindamennirnir sem stýrðu rannsókninni sögðust ekki sannfærðir um að te væri raunverulega orsök krabbameins. Mögulega ýtti te undir heilbrigði sem leiddi svo til þess að menn næðu hærri aldri, en krabbamein í blöðruhálskirtli er algengara meðal eldra fólks.

„Við vonum þess vegna að niðurstöðurnar verði ekki til þess að fólk hætti að drekka te af ótta við krabbamein," sögðu þeir í yfirlýsingu vegna rannsóknarinnar.

Í rannsókn sem birtist árið 2007 var aftur á móti komist að þeirri niðurstöðu að tedrykkja minnkaði hættu á húðkrabbameini. Slóðinn að heilbrigðu líferni er því vandrataður ætli maður að taka mið af öllum rannsóknum.

Nú var fylgst með yfir 6.000 manns í 37 ár frá árinu 1970 í Skotlandi. Af heildinni var um fjórðungur mannanna miklir tedrykkjumenn. 6,4% þeirra greindust með krabbamein í blöðruhálskirtli á tímabilinu.

Hér er umfjöllun BBC um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×