Erlent

Stóraukin öryggisvarsla í kringum fund Bilderberg hópsins

Öryggisvarsla í kringum hinn árlega fund Bilderberg hópsins sem hefst í dag hefur verið stóraukin frá því sem áður var.

Ástæðan fyrir þessu er að Yfirtökum Wall Street hreyfingin ætlar að efna til víðtækra mótmæla við fundarstaðinn. Fundurinn fer fram á Marriott Westfield hótelinu í Virginíu í Bandaríkjunum skammt frá höfuðstöðvum bandarísku leyniþjónustunnar og stendur í þrjá daga.

Eitt helsta fundarefnið að þessu sinni að sögn blaðsins The Guardian verða vandamál evrusvæðisins og hvað eigi að gera við Grikkland. Bilderberg átti hlut að máli við stofnun evrusvæðisins en hópurinn er sem kunnugt er m.a. skipaður helstu leiðtogum og fyrirtækjastjórnendum heimsins.

Íslenskum ráðamanni hefur ekki verið boðið á Bilderberg fund í þó nokkur ár. Sá sem síðast sótti slíkan fund var Geir Haarde fyrrum forsætisráðherra. Af öðrum Íslendingum sem sótt hafa Bilderberg fundina má nefna forsætisráðherrana fyrrverandi, Bjarna Benediktsson, Geir Hallgrímsson og Davíð Oddsson sem og Björn Bjarnason fyrrum dómsmálaráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×