Skoðun

Vissir þú þetta um rafhjólin (rafmagnshjól)?

Þóra Magnea Magnúsdóttir skrifar
Þótt fótstigin hjól séu mun algengari en þau vél- og rafknúnu þá hefur umferð þeirra síðarnefndu aukist til muna. Umferðarstofa vill tryggja öryggi allra vegfarenda og með það í huga hafa verið gefnar út leiðbeiningar og góð ráð um notkun vél- eða rafknúinna hjóla sem gerð eru fyrir allt að 25 km hraða. Þótt þessi hjól séu margskonar að stærð og gerð þá flokkast þau sem ein tegund reiðhjóla. Þau eru þó á margan hátt frábrugðin hefðbundnum reiðhjólum. Flest þessara hjóla eru hönnuð fyrir þá sem eldri eru og teljast ekki til leikfanga. Akstur þeirra krefst fullrar athygli, einbeitingar og færni.

Umferðarstofa mælir ekki með að börn yngri en 13 ára séu á vél- og rafdrifnum hjólum sem komast upp í 25 km hraða þótt slíkt sé enn heimilt samkvæmt lögum. Það er bannað að vera á þessum hjólum á akbrautum en heimilt að vera á gangstétt, gangstígum og hjólreiðastígum. Í raun eru ökumenn þessara tækja gestir á gangstéttum líkt og hjólreiðamenn. Þeim bera að sýna gangandi vegfarendum tillitssemi og víkja fyrir þeim. Sé hjólið rafknúið er það svo til hljóðlaust og því getur það komið gangandi vegfarendum að óvörum þegar t.d. farið er framúr og því er mikilvægt að nota hljóðmerki til að vara aðra við ef hætta er á ferðum líkt og hjólreiðamenn eiga að gera með reiðhjólabjöllu.

Nokkuð vill bera á að ungmenni stundi það að reiða farþega á hjólunum en á það skal bent að slíkt er bannað. Sá sem er orðinn 15 ára má þó reiða barn yngri en 7 ára í sérstöku öryggissæti. Umferðarstofa bendir ennfremur á að nauðsynlegt er að nota hlífðarhjálm og þeir sem eru yngri en 15 ára er skylt að nota reiðhjólahjálm. Þá er æskilegt að vera með viðbótarhlífðarbúnað af öðrum toga og í góðum skóm.

Hafa þarf í huga að hjólin komast á töluverða ferð án þess að ökumaður beiti miklum kröftum við inngjöf og því getur skapast meiri hætta á að viðkomandi missi vald á þeim en á venjulegum reiðhjólum. Hjólin eru nokkuð þyngri en venjuleg reiðhjól og því stærri kraftar að verki ef óhapp á sér stað. Ef hjólið kemst hraðar en 25 km/klst fyrir eigin vélarafli er það í raun létt bifhjól og þ.a.l. skráningarskylt, vátryggingarskylt og á það þarf sérstök ökuréttindi. Létt bifhjól mega ekki vera á gangstéttum, gangstígum og hjólreiðastígum.

Þótt hjól sem kemst ekki hraðar en 25 km/klst sé ekki vátryggingarskylt vill Umferðarstofa minna á mikilvægi þess að kannað sé hvaða og hvort tryggingar ökumanns nái yfir slys eða tjón sem notkun hjólsins kann að valda. Að lokum er vert að minna á að mörg þessara hjóla eru ekki leiktæki og viss hætta sem getur fylgt öflugum rafmagnstækjum eða bensínvélum.




Skoðun

Sjá meira


×