Erlent

Afmælishátíð Bretlandsdrottningar í myndum

BBI skrifar
Elísabet drottning í konunglegu stúkunni við kappreiðabrautina í Epsom.
Elísabet drottning í konunglegu stúkunni við kappreiðabrautina í Epsom. Mynd/AFP
Elísabet bretlandsdrottning fagnaði 60 ára valdaafmæli sínu nú um helgina. Hún er annar þjóðhöfðinginn í sögu Englands sem hefur náð þessum embættisaldri, en Viktoría Bretlandsdrottning sat í 63 ár.

Mikið var um dýrðir á Englandi þegar haldið var upp á demantsafmæli Elísabetar drottningar. Helgin hófst við kappreiðabraut við Epsom en sá staður ku vera í uppáhaldi hjá drottningu. Þar söng sópran söngkonan Katherine Jenkins þjóðsönginn.

Daginn eftir var söguleg skrúðsigling niður Temsá (Thames). Þá sigldu þúsund bátar af öllum stærðum og gerðum niður ána drottningu til heiðurs og minntu þannig á konunglegar skrúðsiglingar sem voru algengar á fyrri tíð. Yfir 20.000 manns voru á bátunum en yfir milljón áhorfendur á bökkunum.

Í gær voru svo demantsafmælistónleikar í Buckingham höll þar sem tónlistarmenn eins og Robbie Williams, Dame Shirley Bassey, Sir Cliff Richard, Stevie Wonder og Elton John komu fram. 10.000 miðar voru seldir á tónleikana.

Hápunktur gærdagsins var þegar tendruð voru yfir 4.200 smábál, nokkurs konar vita-keðja sem lá yfir hnöttinn endilangan. Fyrsti vitinn var í bænum Blenheim í norður Nýja-Sjálandi. Drottning kveikti sjálf í þeim síðasta sem var í London.

Vitakeðjan er endurgerð af elsta skilaboðakerfi Breta. Upphaflega hugmyndin var að hafa 2.012 vita en þegar upp var staðið var slíkur áhugi á þátttöku um allan heim að vitarnir urðu yfir 4000. „Það kristallar þá væntumþykju og virðingu sem Elísabet nýtur meðal heimsbyggðarinnar."

Í dag fór fram þakkargjörðarathöfn í St. Pauls kirkju. Athöfnin markar lok hátíðarhaldanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×