Erlent

"Hvar voru allir þessir fréttamenn fyrir 40 árum?"

Rússneski söngvarinn, sem myndbandavefurinn Youtube gerði óvænt heimsfrægan á gamalsaldri sem Trololo, lést í Sánkti Pétursborg í gær, 77 ára að aldri.

Hann hét í raun Edvard Kihl, hafði verið þekktur í gömlu Sovétríkjunum fyrir 40 árum, en flestum gleymdur þar til fyrir tveimur árum að einhver fann gamalt myndband af honum úr sovéska sjónvarpinu frá árinu 1976 og setti á Youtube.

Þetta var 21. febrúar 2010. Skemmst er frá því að segja, hann sló í gegn á netinu, mánuði síðar höfðu yfir þrjár milljónir manna séð myndbandið, talan hækkaði fljótlega í tólf milljónir manna, - allir hrifust af þessum glaðlynda söngvara, sem söng bara „trolololo". Auk þess hafa milljónir til viðbótar horft á ótal grínútgáfur af söngnum.

Herra Trololo varð þannig óvænt heimsfræg stjarna vegna Youtube, Rússar settu hann aftur á stall og sjónvarpsstöðvar kepptust um gamla manninn. Sjálfur varð hann steinhissa, hélt fyrst að einhverjir væru að fíflast með sig en spurði svo:

„Hvar voru allir þessir fréttamenn fyrir 40 árum?"

Þessarar endurnýjuðu frægðar naut hann þó ekki lengi, hann veiktist alvarlega fyrir tveimur vikum og lést á sjúkrahúsi í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×