Erlent

Þóttist vera látinn til að blekkja morðingja

Ali el-Sayed
Ali el-Sayed mynd/AP
Sýrlenskur piltur greip til örþrifaráða þegar vígamenn myrtu fjölskyldu hans í bænum Houla í síðustu viku. Hann makaði blóði bróður síns á föt sín til að blekkja morðingjana.

Hinn ellefu ára gamli Ali el-Sayed lét sig falla á gólfið um leið og vígamennirnir brutust inn á heimili hans í Houla á laugardaginn. Þeir skutu foreldra hans og fjögur systkini til bana á augabragði.

Yngsti meðlimur fjölskyldunnar, hinn sex ára gamli Nader, var skotinn í höfuðið. Ali sagði AP fréttaveitunni að hann hafi skriðið að bróður sínum og makað blóði hans á andlit sitt og föt. Þannig tókst honum að blekkja ódæðismennina.

Ali segir að mennirnir hafi verið krúnurakaðir og með langt skegg.

Fjöldagröf við Houla í Homs-héraði.mynd/AFP
Að minnsta kosti 100 manns létust í fjöldamorðunum — fórnarlömbin voru ýmist skotin eða stungin til bana. Flestir hinna látnu voru konur og börn.

Fjöldi þjóðarleiðtoga og alþjóðlegra samtaka hafa fordæmt morðin. Þá hefur rannsókn eftirlitsmanna Sameinuðu Þjóðanna leitt í ljós að múslimskir skæruliðar voru að verki og að þeir hafi fylgt skipunum yfirvalda í Sýrlandi.

Talið er að um 13 þúsund manns hafi fallið í átökunum í Sýrlandi síðan stjórnarbylting hófst í landinu í mars á síðasta ári.

Hægt er að nálgast umfjöllun AP fréttaveitunnar um fjöldamorðin í Houla hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×