Erlent

Drekinn er lentur

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Dragon-birgðahylkið.
Dragon-birgðahylkið. mynd/AFP
Starfsmenn bandaríska fyrirtækisins SpaceX fögnuðu ákaft þegar Dragon-birgðahylkið lenti í Kyrrahafinu við strendur Kaliforníu fyrir stuttu.

Fyrstu geimferð SpaceX er það með lokið en fyrirtækið er það fyrsta til að senda eldflaug til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar og ná að koma henni aftur í gegnum lofthjúp Jarðarinnar.

Stjórnendur verkefnisins fylgdust með för hylkisins úr höfuðstöðvum SpaceX í Kaliforníu á meðan samstarfsmenn þeirra hjá NASA stjórnuðu leiðangrinum frá Houston.

Hraðbátar eru nú á leið að hylkinu.Takist björgunarmönnum að hafa upp á því mun samningur SpaceX og NASA ganga í gildi en fyrirtækið mun annast birgðaflutning til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar næstu ár.

Hylkið, sem er mannlaust, losnaði frá geimstöðinni seint í gærkvöld. Það hafði flutt rúmlega hálft tonn af matvælum og öðrum birgðum í geimstöðina.

SpaceX braut blað í sögu geimferða þegar það skaut birgðahylkinu á sporbraut um jörðu, 22. maí síðastliðinn, og varð þannig fyrsta einkafyrirtækið til að skjóta eldflaug til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×