Skoðun

Óupplýstir spekingar í Silfrinu

Ástþór Magnússon skrifar
Ekki er furða að umræðan um forsetaembættið sé á villigötum þegar ritstjóri stærsta prentmiðils landsins til fjölda áratuga afhjúpar að hann hefur ekki kynnt sér stefnumál forsetaframbjóðanda síðastliðin 16 ár!

Furðulegt er að í helsta pólitíska umræðuþætti RÚV eru dregnir fram hinir ýmsu spekingar, m.a. menn fyrri kynslóða á eftirlaunum að fjalla um forsetaembættið og væntanlegar forsetakosningar, en frambjóðendur sjálfir útilokaðir frá þátttöku.

Ég tek undir þau orð Styrmis Gunnarssonar fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins að það sé úrelt fyrirkomulag að einn maður sitji á Bessastöðum með alræðisvald í því hvort einstök mál fari í þjóðaratkvæði. Hinsvegar er Styrmir illa upplýstur þegar hann íhugar að leggja ætti niður forsetaembættið. Það væri álíka óviturlegt og að leggja niður útgerðina og hætta að veiða fiskinn í sjónum. Með því að Virkja Bessastaði gæti forsetaembættið lagt hornstein að nýjum atvinnuvegi sem gæti veitt þúsundum Íslendinga góð störf í framtíðinni, aflað milljarðatekna fyrir þjóðarbúið og virkað sem öflug vítamínsprauta í vaxandi ferðaþjónustu landsmanna.

Atvinnupóllinn í hugmyndafræðinni Virkjum Bessastaði er að skilgreina Ísland sem land heimsfriðar. Að á Íslandi verði í framtíðinni aðsetur alþjóðastofnanna sem vinna að friðar- og lýðræðisþróun. Ísland er einstakt að því leyti að hér hefur ríkt friður í nærri þúsund ár og landsmenn hvorki borið vopn né rekið skipulagðan hernað. Það er þessi arfleifð sem hefur fyllt menn erlendis hrifningu hvar sem ég hef kynnt Ísland sem land friðarins.

Við sjáum nú þegar árangur af þessu starfi. Hingað komu heimsþekktir erlendir fræðimenn, m.a. höfundur handbóka Sameinuðu Þjóðanna að friðarsamningum, til að tala fyrir hugmyndum mínum um að virkja forsetaembættið en fengu ekki áheyrn fjölmiðla. Einnig var Ísland nýlega valið sem heimaland friðarsúlu og minnismerkis um John Lennon. Nú er bara að halda áfram og ná almennri samstöðu þjóðarinnar um að forseti Íslands virki Bessastaði.

Lýðræðispóllinn í hugmyndafræðinni Virkjum Bessastaði er að færa valdið til fólksins í landinu með beinu lýðræði. Að forsetinn nýti málskotsréttinn með skipulögðum hætti til að leiða þjóðina úr úreltri hugmyndafræði gömlu fjórflokkanna í nútímalegra og beinna lýðræðisform þar sem þjóðaratkvæði verða eðlilegur þáttur í lýðræðinu. Þjóðaratkvæðagreiðslur um stærri deilumál eru virkasta formið til að brúa gjána milli þings og þjóðar til framtíðar og koma á sáttum í samfélaginu.

Með orðum sínum í Silfri Egils afhjúpar Styrmir fálæti og þekkingarleysi. Það er ekki að ástæðulausu að ég hef deilt á fjölmiðla fyrir óvandaða umfjöllun í aðdraganda forsetakosninga. Hafi menn sem hafa atvinnu af því að fylgjast með þjóðmálaumræðu ekki meðtekið kjarnann í hugmyndafræðinni Virkjum Bessastaði í gegnum 16 ára baráttu forsetaframbjóðanda er það lýsandi dæmi um hvernig fjölmiðlunin hefur brugðist.

Dapurlegt er að horfa uppá íslenska fjölmiðlamenn tala af innsæi um forsetakosningar erlendis en eins og illa upplýstir bakkabræður um sama málefni í heimalandinu. Gæti verið að Egill Helgason sé að gera mistök með því að útiloka forsetaframbjóðendur frá því að koma í Silfrið að ræða stefnumál sín og skýra hversvegna þau eigi erindi við þjóðina?

Með því að sniðganga frambjóðendur í helsta umræðuþætti fjölmiðlanna er verið að viðhalda stöðnun forsetaembættisins og snúa kosningunum uppí hálfgerða fegurðarsamkeppni í stað þess að fjalla um raunverulega innviði embættisins og frambjóðenda. Það er grafalvarlegt mál ef fjölmiðlafólk kemst upp með að blinda kjósendur með innihaldslausri froðu til að hertaka Bessastaði og byggja þar rólur og sandkassa.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×