Skoðun

Skipulagsdagar eða ekki?

Heiða Sigurjónsdóttir skrifar
Innan um fjölmarga neikvæða punkta í umræðu um og gagnvart leikskólum Reykjavíkur kom loksins jákvæður punktur upp á yfirborðið. Við fáum einn skipulagsdag í viðbót. Það gleður mig að Reykjavíkurborg sjái hversu mikilvægt starf leikskóla Reykjavíkur er í raun og veru og vill þar af leiðandi veita okkur aukinn tíma til að vinna að og meta það starf sem við vinnum dag hvern. Hannes G. Sigurðsson aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins vakti máls á þessu með grein á vefsíðu Samtaka atvinnulífsins þann 29. apríl.

Ég fagna þeim hluta umræðunnar um að hægt væri að veita starfsfólki leikskóla þennan undirbúningstíma á þannig tíma að foreldrum henti betur. Flestir geta verið sammála um að það hentar vinnandi fólki ekki vel að þurfa að taka frí, þó það sé í þágu barnanna. Ég get þó ekki annað en gert nokkrar athugasemdir.

Í fyrsta lagi er rétt að taka fram að árið 2007, þegar skipulagsdögum var fjölgað í 4, fengu starfsmenn hjá leikskólum Reykjavíkur tveggja klukkustunda starfsmannafund, mánaðarlega. Oftast er miðað við að hafa starfsmannafund 10 mánuði ársins og jafngildir þetta því tveimur og hálfum skipulagsdegi. Þegar starfsmannafundir voru lagðir niður vegna fjárskorts hjá borginni var brugðið á það ráð að fjölga skipulagsdögum þar sem starfsfólk sinnti undirbúningi og endurmati innan hefðbundins vinnutíma. Þar með þurfti ekki að greiða starfsfólki leikskólanna yfirvinnu.

Í greininni sagði Hannes: „Eðlilega er spurt hver sé ávinningur með þessum starfsdögum og hvernig til hafi tekist varðandi umönnun barnanna áður en skipulagsdagar voru teknir upp." Sem stoltur starfsmaður hjá leikskólum Reykjavíkur hrasa ég illilega við þessi ummæli. Þarna glittir í viðhorf sem ég vonaði að væri löngu gleymt, að undirbúningsvinna af þessu tagi sé óþörf, að það þurfi nú ekkert að hafa svo mikið fyrir leikskólabörnum. Ég er alveg viss um að umönnun barna áður en skipulagsdagar voru teknir upp var mjög góð, en sennilega var þá meira um umönnun en minna um skipulagt starf. Ég segi sennilega af því ég hef aldrei unnið við þær aðstæður. Í dag eru gerðar mun meiri kröfur til starfsemi leikskóla, leikskólinn er núna fyrsta skólastigið með sína eigin námskrá og því fylgir aukin skipulagning. Ég hef aldrei þekkt til annars en að skipulagsdagar séu hluti af leikskólaumhverfinu og veit að skipulagsdagar eru nauðsynlegir.

Einnig langar mig að benda á að óraunhæft er að bera saman „venjuleg" fyrirtæki (eins og Hannes kallar það) og leikskóla. Í „venjulegum" fyrirtækum eru ekki 18 fjörugir viðskiptavinir hlaupandi í kringum starfsmanninn í 8-9 klukkustundir á dag. Í „venjulegu" fyrirtæki geta starfsmenn safnast saman í fundarherbergi og skipulagt og metið starfið án þess að 18 viðskiptavinir séu í lausu lofti í næsta herbergi á meðan. Í leikskólanum er ekki hægt að nýta hefðbundinn vinnudag til að skipuleggja og endurmeta starfið, nema börnin séu heima.

Að lokum langar mig að ítreka að ég er sammála því að mér finnst æskilegt að skoða hvort ekki sé hægt að sinna þessari undirbúningsvinnu að einhverju leyti utan hefðbundins vinnutíma, ákvörðun um það liggur hjá Reykjavíkurborg (og öðrum sveitarfélögum). En mér finnst mjög mikilvægt að á sama tíma sé ekki gert lítið úr störfum þeirra sem sinna börnunum dag hvern.

Ég hvet alla sem hafa tækifæri til að líta við á opnum húsum leikskólanna í borginni, sem eru haldin víða í byrjun maí, og kynna sér starfsemi þeirra.

Heiða Sigurjónsdóttir

Deildarstjóri í leikskólanum Jörfa




Skoðun

Sjá meira


×