Erlent

Charles Manson neitað um reynslulausn á ný

Mynd sem tekin var af Manson fyrr í þessum mánuði. Hann er nú 77 ára gamall.
Mynd sem tekin var af Manson fyrr í þessum mánuði. Hann er nú 77 ára gamall. mynd/AP
Bandaríska fjöldamorðingjanum Charles Manson var neitað um reynslulausn í dag af dómstólum í Kaliforníu. Þetta er í tólfta sinn sem Manson fer fram á að verða sleppt úr haldi.

Árið 1969 var Manson fundinn sekur um að hafa myrt sjö manns, þar af leikkonuna Sharon Tate, eiginkonu leikstjórans Roman Polanski. Tate var gengin rúma átta mánuði á leið þegar hún var stungin til bana.

Manson var upphaflega dæmdur til dauða en eftir að dauðarefsingar voru afnumdar í Kaliforníu var dómi hans breytt í lífstíðar fangelsi.

Manson var leiðtogi hinnar svokölluðu Manson-fjölskyldu. Talið er að hópurinn beri ábyrgð á níu morðum í Kaliforníu á árunum 1968 til 1969.

Þessar myndir voru teknar af Manson árið 1971 og 2009.mynd/AFP
Líkt og áður var Manson ekki viðstaddur þegar niðurstaðan var kveðin upp í dag. Hann fær þó tækifæri til þess eftir 15 ár en þá verður reynslulausn hans tekin fyrir á ný. Manson verður þá 92 ára gamall.

Manson hefur margoft brotið af sér innan veggja fangelsisins. Hann hefur ógnað fangavörðum og smyglað bæði vopnum og farsímum inn í fangelsið.

Fjöldi fólks var í réttarsalnum í Kaliforníu í dag. Þar á meðal var Debra Tate, systir Sharon Tate.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×