Erlent

Með sömu greindarvísitölu og Albert Einstein

Heidi Hankins er líkleg til stórræða á næstu árum.
Heidi Hankins er líkleg til stórræða á næstu árum. mynd/ABC
Fjögurra ára gömul stúlka í Bretlandi hefur fengið inngöngu í Mensa en það er alþjóðlegur hópur fólks með háa greind. Stúlkan er með álíka háa greindarvísitölu og Albert Einstein.

Það voru leikskólakennarar Heidi litlu Hankins sem upphaflega tóku eftir afburða greind hennar. Stuttu seinna var Heidi látin taka greindarpróf - niðurstaðan þótti ótrúleg.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem svo ungur einstaklingur fær inngöngu í Mensa-samtökin. Fyrir nokkrum árum var tveggja ára gömlum pilti boðið í samtökin. En tilfelli Heidi litlu þykir afar sérstakt.

Gáfnastuðull Heidi var 159. Meðalgreind venjulegs einstaklings er 100 - þeir sem skríða yfir 130 eru sagðir vera afburðagreindir.

Greindarvísitala Heidi er því áþekk þeirri sem eðlisfræðingarnir Stephen Hawking og Albert Einstein greindust með á sínum tíma. Gáfnastuðull þeirra var 160.

Heidi hefur ekki enn hafið skólagöngu sína. Samt sem áður þekkir hún grundvallarlögmál stærðfræðinnar og er nokkuð sleip í ritun. Þá er hún einnig efnilegur listmálari.

Albert Einstein var með eina hæstu greindarvísitölu sem vitað er um.mynd/AP
Hún var aðeins tveggja ára gömul þegar hún var byrjuð að lesa bækur fyrir eldri börn. Matthew Hants, faðir Heidi, segir að dóttir sín hafi ávallt verið afburða snjöll. „Það var lesturinn sem vakti athygli okkar," sagði Matthew.

„Hún fór í gegnum heila bók á 30 mínútum - ekki beint það sem maður býst við af tveggja ára gömlu barni."

Að sögn Matthews er Heidi fullkomlega eðlileg stúlka, þrátt fyrir gáfur sínar.

„Um daginn var kartöflumús og fiskur í kvöldmatinn," sagði Matthew. „Frekar óspennandi kvöldverður. Heidi sat við borðið og sagði kaldhæðnislega: „En tilkomumikið.""

„Það leikur allavega enginn vafi á því að Heidi hefur kímnigáfu," sagði Matthew.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×