Erlent

Eldflaugaskotið klúðraðist

Mynd/AP
Yfirvöld í Norður Kóreu staðfesta að eldflaugaskot þeirra í gærkvöldi hafi farið út um þúfur. Miklar deilur hafa verið um eldflaugaskotið síðustu daga en flauginni var skotið á loft í gærkvöldi.

Nágrannarnir í suðri ásamt fleiri ríkjum sögðu að um tilraun til að þróa langdræga flaug sem borið gæti kjarnavopn væri að ræða en Norður Kóreumenn sögðu ávallt að þeir ætluðu sér að skjóta gerfihnetti á sporbaug um jörðu. Hnötturinn átti síðan að útvarpa lofsöngvum um hinn ástkæra leiðtoga Kim il Sung, afa núverandi leiðtoga Kim Jong un.

Þegar flauginni var loks skotið á loft hélst hún aðeins á réttri braut í stuttan tíma áður en hún brotnaði í sundur og féll í sjóinn við Kóreuskaga. Yfirvöld í höfuðborginni Pyongyang hafa viðurkennt að um bilun hafi verið að ræða. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur verið kallað saman til fundar vegna málsins en allar tilraunir með langdrægar kjarnaflaugar eru bannaðar samkvæmt ályktun Sameinuðu þjóðanna.

Suður Kóreu menn hafa þegar sett af stað leitarflokka sem leita nú að brakinu úr flauginni til þess að komast að því hvað fyrir nágrönnum þeirra vakti.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×