Bandaríska strandgæslan hyggst sökkva tæplega 200 feta löngu japönsku draugaskipi sem hefur rekið stefnulaust eftir að flóðbylgja skall á Japan í kjölfari öflugs jarðskjálfta þar í landi í mars á síðasta ári. Skipið, sem er rækjuskip, rekur stjórnlaust um 300 kílómetrum frá Sitka í Alaska-flóa.
Nokkrar áhyggjur eru vegna skipsins þar sem það er fullt af eldsneyti sem gæti haft skaðleg áhrif á lífríki í Alaska. Sérfræðingar segja það spurning um tíma hvenær skipið muni stranda og því sé best að sökkva því á hafi úti í stað þess að það strandi nærri landi og valdi í kjölfarið umhverfisspjöllum.
Skipið heitir Ryou-Un Maru og er hluti af fimm milljónum tonna af braki sem skolaðist á haf út þegar flóðbylgjan skall á Japan.
Ætla að sökkva japönsku draugaskipi
