Erlent

Smáforrit munu hjálpa fólki á hamfarasvæðum

mynd/AFP
Stjórnvöld í Bretlandi munu eyða tæpum tíu milljörðum króna í þróun sérstakra smáforrita sem aðstoða munu fórnarlömb náttúruhamfara.

Smáforritin munu gera fólki kleift að finna og sameinast fjölskyldumeðlimum sínum í kjölfar hamfara. Þá verður einnig hægt að koma mikilvægum skilaboðum á framfæri í gegnum innbyggt samskiptakerfi forritanna.

Forritin verða einnig notuð til að leiðbeina fólki um hvernig eigi að bregðast við þegar stórslys á sér stað.

Aðalritari Alþjóðaþróunarsamtakanna, Andrew Mitchell, hvetur stjórnvöld víðs vegar um heim til að fylgja fordæmi Bretlands.

„Staðreyndin er sú að tíðni og alvarleiki náttúruhamfara á eftir að aukast á næstu árum," sagði Mitchell. Hann segir að nýsköpun sé lykillinn að því að takast á við stórslys og náttúruhamfarir.

„Samtími okkar er yfirfullur af nýstárlegri tækni," sagði Mitchell. „Við verðum að tileinka okkur þessa tækni - ekki einungis í hversdagslegum tilgangi - heldur svo að þessi tækni nýtist okkur og auki öryggi okkar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×