Erlent

Bollywood Bond bannaður í Pakistan

Indverska kvikmyndin Agent Vinod hefur verið bönnuð í Pakistan. Kvikmyndin fjallar um sjarmerandi spæjara sem reynir að koma í veg fyrir að pakistanskir hryðjuverkamenn sprengi kjarnorkusprengju í Nýju-Delí.

Yfirvöld í Pakistan segja að kvikmyndin sýni Pakistana í neikvæðu ljósi og því hafi hún verið bönnuð.

Agent Vinod er ein dýrasta kvikmynd sem framleidd hefur verið í Bollywood og er hennar beðið með mikilli eftirvæntingu á Indlandi.

Í myndinni þarf Vinod að berjast við pakistönsku hryðjuverkasamtökin Lashkar-e-Taiba. Talið er að samtökin hafi staðið að baki árás í Mumbai árið 2008. Rúmlega 160 manns létust í árásinni.

Það er leikarinn Saif Ali Khan sem fer með hlutverk Vinods en hann er einnig framleiðandi kvikmyndarinnar. Í sjónvarpsviðtali fyrir stuttu viðurkenndi hann að myndin dragi upp neikvæða mynd af Pakistönum.

„Við vitum að hermenn Pakistan tengjast Talibönum í Afganistan," sagði Khan. „Tengsl Pakistan við Lashkar-e-Taiba eru augljós. Þeir mega hafa sýna hentisemi um það hvort að myndin verði sýnd í landinu eða ekki."

Pakistan og Indland hafa lengi átt í erjum. Frá því að landsvæðunum var skipt árið 1947 hafa löndin þrisvar sinnum farið í stríð og reglulega ásaka þau hvort annað um að stunda njósnir.

En þetta er ekki fyrsta kvikmyndin frá Bollywood sem sýnir Pakistan í neikvæðu ljósi. Kvikmyndin Tere bin Laden - sem þýðir Ykkar bin Laden - var frumsýnd árið 2010 við dræmar viðtökur í Pakistan.

Hægt er að sjá brot úr Agent Vinod hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×