Borgarstjórinn í Toulouse í Frakklandi hefur farið fram á að jarðarför fjöldamorðingjans Mohamed Merah verði frestað. Til stóð að jarða Merah í dag en yfirvöld í borginni telja útförina ekki vera viðeigandi.
Merah var felldur af sérsveit frönsku lögreglunnar í síðustu viku. Hann er grunaður um að hafa myrt sjö manns í suðurhluta Frakklands á síðustu vikum og að hafa staðið að baki skotárás á gyðingaskóla í Toulouse.
Fjölskylda Merah fór upphaflega fram á að hann yrði jarðaður í Alsír. Yfirvöld í Alsír þvertóku hins vegar fyrir að Merah yrði jarðaður í landinu.
Í tilkynningu frá ráðhúsinu í Toulouse kemur fram að jarðarförinni verði frestað þangað til á morgun.
Jarðarför Merah frestað
