Skoðun

Brot úr sögu Neytendasamtakanna

Jóhannes Gunnarsson skrifar
Á næsta ári eru liðin 60 ár frá stofnun Neytendasamtakanna en þau eru þriðju elstu neytendasamtök í heiminum. Það var framsýnt fólk sem stóð að stofnun samtakanna á sínum tíma og að öðrum ólöstuðum fór Sveinn Ásgeirsson hagfræðingur þar fremstur í flokki. Neytendasamtökin hafa í gegnum tíðina haft afskipti af ótal málum sem varða hagsmuni neytenda og er hér tæpt á nokkrum þeirra.

Hvile vask-máliðFyrst skal nefnt til sögunnar svokallað Hvile vask-mál sem kom upp á fyrsta starfsári samtakanna. Þvottaefnið Hvile vask var auglýst í útvarpinu á eftirfarandi hátt: „Gerið þvottadaginn að hvíldardegi! Notið Hvile vask.“ Neytendasamtökin létu efnagreina þvottaefnið og var niðurstaðan sú að hér var ekkert undraefni á ferðinni. Þvottaefnið innihélt einfaldlega óvenjumikið bleikiefni þannig að þvotturinn varð eðlilega hvítari. Gallinn var hins vegar sá að slit á þvottinum var meira en eðlilegt gat talist. Samtökin sendu í kjölfarið frá sér fréttatilkynningu þar sem niðurstöðurnar voru kynntar og dróst salan mikið saman í kjölfarið. Innflytjandinn krafðist þess að Neytendasamtökin drægju yfirlýsingu sína til baka ella myndi hann stefna samtökunum. Á þetta féllust samtökin ekki og höfðaði innflytjandinn þá mál. Neytendasamtökin töpuðu málinu í undirrétti en áfrýjuðu málinu til Hæstaréttar. Með mikilli gagnasöfnun, m.a. í nágrannalöndunum, unnu Neytendasamtökin síðan málið fyrir Hæstarétti og hvarf þá þetta þvottaefni fljótlega af markaði.

Óætar kartöflurÁ árum áður hafði Grænmetisverslun landbúnaðarins einokun á innflutningi á grænmeti og kartöflum þegar innlend framleiðsla annaði ekki eftirspurn. Oftar en ekki höfðu verið fluttar inn kartöflur sem vart töldust mannamatur. Á vordögum árið 1984 flutti Grænmetisverslunin inn kartöflur frá Finnlandi sem voru sýktar og að mestu leyti óætar. Nú var þolinmæði neytenda á þrotum og mikil óánægja braust út. Neytendasamtökin ákváðu að standa fyrir undirskriftasöfnun meðal neytenda þar sem krafist var að innflutningur á kartöflum og öðru grænmeti yrði gefinn frjáls. Þrátt fyrir að undirskriftalistar lægju aðeins frammi í verslunum í þrjá daga skrifuðu 20 þúsund neytendur undir þessar kröfur. Voru þær afhentar þáverandi landbúnaðarráðherra, Jóni Helgasyni, sem tók þeim fálega. Eftir fund sem forystumenn Neytendasamtakanna áttu með þáverandi forsætisráðherra, Steingrími Hermannssyni, var breytingum lofað. Í framhaldinu var svo einokun á innflutningi lögð af og í kjölfarið var Grænmetisverslun landbúnaðarins lögð niður. Finnsku kartöflurnar urðu þannig banabiti þeirrar einokunar sem ríkt hafði á þessu sviði.

Tómötum hent á hauganaMikil umræða var um svipað leyti þegar upp komst að framleiðendur tómata hentu tómötum í stórum stíl á haugana til að halda uppi verði. Neytendasamtökin mótmæltu harðlega og lögðu áherslu á að verð yrði frekar lækkað og þannig hvatt til aukinnar neyslu. Framleiðendur féllust á að reyna þetta og jókst salan mikið í kjölfarið. Það þurfti því ekki lengur að henda tómötunum því neytendur borðuðu þá af bestu lyst. Framleiðendur högnuðust af meiri sölu og neytendur fengu vöruna á lægra verði og því græddu báðir.

Samráð olíufélagannaLoks skal hér nefnt til sögunnar nýlegt mál í framhaldi af uppljóstrun samkeppnisyfirvalda á samráði olíufélaganna sem staðið hafði frá árinu 1993 og þar til húsleit var gerð hjá þeim í lok árs 2001. Neytendasamtökin töldu einsýnt að með samráðinu hefðu olíufélögin valdið neytendum tjóni. Því var ákveðið að hvetja þá neytendur sem gátu með kvittunum sýnt fram á viðskipti sín við olíufélögin á því tímabili sem samráðið stóð yfir, að koma með kvittanir á skrifstofu samtakanna. Í framhaldi af því var ákveðið að höfða prófmál fyrir neytanda sem vannst fyrir héraðsdómi og sem staðfestur var af Hæstarétti. Í kjölfar þessa var svo gert samkomulag við olíufélögin um að þau myndu með sama hætti bæta öðrum sem orðið höfðu fyrir tjóni og lagt fram kvittanir til Neytendasamtakanna. Þessi dómur og samkomulagið í kjölfar hans markar tímamót enda vitum við ekki af sambærilegu máli í nágrannalöndum okkar. Um leið er dómurinn viðvörun til markaðarins því ef fyrirtæki valda neytendum tjóni með háttalagi sínu getur það átt von á málsókn. Ný lög um hópmálsókn einfalda málin ef slík atvik koma upp.




Skoðun

Sjá meira


×