Viðskipti innlent

Óheppilegt að málið sé komið í opinbera umræðu

Aðalsteinn Leifsson formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins.
Aðalsteinn Leifsson formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins.
Stjórn FME hefur framlengt frest sem Gunnar Anderssen hefur til að andmæla bréfi sem stjórnin sendi honum fyrir helgi þess efnis að til stæði að segja honum upp störfum. Stjórnarformaðurinn telur óheppilegt að málið sé komið í opinbera umræðu og vill ljúka því sem allra fyrst.

Stjórn FME átti fund með Gunnari Andersen á fimmtudag þar sem meðal annars var rætt um möguleikann á ná samkomulagi um starfslok hans.

Aðalsteinn Leifsson stjórnarformaður segir að þegar í ljós hafi komið að djúpt væri á því að samkomulag næðist hafi Gunnari verið veittur andmælafrestur.

Andmælafresturinn var veittur þar sem Gunnar taldi sig hafa of lítinn tíma til að svara, meðal annars vegna mikils ágangs fjölmiðla, stjórnin FME ákvað því á fundi sínum í gærkvöldi að framlengja frestinn fram á fimmtudag.

Aðalsteinn segir að það hafi verið fullkomlega eðlilegt að verða við því en að horft hafi verið til þess að hafa frestinn ekki of langan. Óheppilegt sé fyrir starfsemi stofnunarinnar að málið standi svona og sé komið í opinbera umræðu. Horft sé til þess að starfsemi FME raskist sem allra minnst.

Stjórnin svaraði einnig spurningum sem Gunnar bar fram í bréfi sínu. Þar óskaði hann meðal annars eftir því að fá að sjá þau nýju gögn sem nýtt hæfnismat hans var meðal annnars unnið eftir.

Aðalsteinn segir að stjórnin hafi svarað öllum þeim spurningum sem forstjórinn lagði fram. Hann vill hinsvegar ekki tjá sig efnislega um þau svör.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×