Viðskipti innlent

Enginn tími til að reikna hásetahlutinn

Kristján Már Unnarsson skrifar


Loðnuævintýrið hellist nú yfir Suðurnesjamenn en þrír drekkhlaðnir loðnubátar hafa síðasta sólarhringinn landað nærri fjögur þúsund tonnum í Helguvík. Hasarinn byrjaði í gærkvöldi þegar Hákon ÞH landaði 600 tonnum og nú síðdegis var Bjarni Ólafsson AK að halda á miðin á ný eftir að hafa landað 1300 tonnum. Nýjasta loðnuskip flotans, Börkur NK, hafði svo beðið frá því í morgun eftir því að komast að til að landa um1800 tonnum sem veiddust við Hrolllaugseyjar undan Suðursveit.

Mun styttra er að sigla þaðan til Austfjarðahafna en skipstjórinn á Berki, Sturla Þórðarson, segir Helguvík valda til að dreifa loðnunni á fleiri verksmiðjur, en viðurkennir að sennlega hefðu þeir einnig lent í löndunarbið fyrir austan.

Rétt eins og Börkur er fiskimjölsverksmiðjan í Helguvík í eigu Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og í landi fagna menn því geta sett bræðsluna á fullt, að sögn Eggerts Ólafs Einarssonar verksmiðjustjóra. Fimm manns vinna á vöktum við bræðslu loðnunnar en talsverður viðbótarmannskapur, 20-25 manns, fylgir umsvifunum í landi, eins og rafvirkjar, járnsmiðir og löndunarmenn, að sögn Eggerts.

Menn eru að sjá fram á einhverja bestu loðnuvertíð um árabil og segir Sturla skipstjóri að góð stemmning sé hjá mannskapnum um borð og hugur í mönnum varðandi framhaldið. Spurður um hásetahlutinn þessar vikurnar svarar skipstjórinn í viðtali í fréttum Stöðvar 2 að enginn tíma hafi verið til að reikna hver hann væri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×