Viðskipti innlent

Spáir því að verðbólgan lækki í 6,2% í febrúar

Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,9% í febrúar. Ef spáin gengur eftir lækkar 12 mánaða verðbólga úr 6,5% í 6,2%. Verðbólga virðist nú hafa náð hámarki í bili, að mati greiningarinnar og gerir hún ráð fyrir frekari hjöðnun hennar í framhaldinu.

„Útsölulok og verðhækkun á eldsneyti eru stærstu einstöku áhrifaþættirnir á VNV í febrúar. Útsölum er nú mörgum hverjum að ljúka og gerum við ráð fyrir að verð á fötum og skóm hækki um 5,5% í febrúar (0,33% hækkun í VNV)," segir í Morgunkorni greiningarinnar.

„Þá áætlum við að verð á húsgögnum og heimilisbúnaði hækki um tæp 2% í mánuðinum (0,13% í VNV). Verð á eldsneyti hefur einnig snarhækkað frá síðustu mælingu Hagstofunnar (0,2% áhrif í VNV). Auk þess hækkar flutningaliður vísitölunnar um 7% (0,1% í VNV) vegna hækkunar á flugfargjöldum og strætófargjöldum.

Á hinn bóginn gerum við ráð fyrir að húsnæðisliður VNV verði óbreyttur milli mánaða, þar sem lækkun á viðhaldskostnaði mun væntanlega vega upp lítilsháttar hækkun á reiknaðri húsaleigu. Þá teljum við að matur og drykkur hækki hóflega í verði (0,06% í VNV) eftir talsverða hækkun í janúar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×