Viðskipti innlent

Enginn undir það búinn að allt hrynji "svo til á einni nóttu"

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, sagði í erindi á málþingi Orators, félags laganema við Háskóla Íslands, í Lögbergi í dag, að ekkert samfélag sé í reynd undir það búið að 90 prósent af fjármálakerfinu hrynji "svo til á einni nóttu". Því hafi verið nauðsynlegt að byrja alveg frá grunni við mótun verklags við rannsóknir mála hjá embætti sérstaks saksóknara. Þar sé reynt að vanda til verka eftir fremsta megni.

Um hundrað mál eru nú til rannsóknar hjá embættinu sem tengjast hruni fjármálakerfisins og um hundrað er tengjast öðrum málum, en efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra var sameinuð sérstökum saksóknara fyrir skemmstu og fluttust mál þess þar með yfir í hið sameinaða embætti.

Ólafur sagði að stór hluti þeirra mála sem væru til rannsóknar hefðu komið inn á borð embættisins frá Fjármálaeftirlitinu. Starf þess réði því oft hvaða mál væru tekin fyrst fyrir. Þannig hefðu endurskoðendaskýrslur sem unnar voru fyrir FME um starfsemi bankanna borist embættinu á misjöfnum tímum. Það hefði t.d. ráðið því að gripið var til aðgerða gegn Kaupþingi á undan öðrum bönkum. Skýrsla um Kaupþing hefði borist fyrst, og því hefði verið gripið fyrst til aðgerða gegn stjórnendum þess banka.

Ólafur Þór sagði í lok erindis síns að það væri gríðarlega mikilvægt að réttkerfið "stæði í lappirnar" í þeim málum sem til rannsóknar væru eftir hrun, og átti þá við að réttindi allra þeirra sem kæmu að málum, beggja vegna borðsins, yrðu að vera í hávegum höfð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×