Viðskipti innlent

Óöryggið vari í sem allra stystan tíma

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Árni telur að málið snerti hagsmuni mjög margra fyrirtækja.
Árni telur að málið snerti hagsmuni mjög margra fyrirtækja.
Það óöryggi sem hæstaréttardómurinn frá því í gær veldur þarf að vara í sem allra stystan tíma, segir Árni Jóhannsson forstöðumaður hjá Samtökum iðnaðarins. „Það ríður á að það hreinsist loftið og menn viti hver hin raunverulega staða er þannig að menn geti farið að byggja sig upp aftur. Óvissa og biðtími er skelfilegur," segir Árni.

Hann segir að það liggi ljóst fyrir að hagsmunir aðila innan Samtaka iðnaðarins séu gríðarlega miklir vegna dómsins í gær. Leigusamningar sem mörg fyrirtæki innan Samtaka iðnaðarins gerðu eru ólögleg gengistryggð lán samkvæmt dómi Hæstaréttar. Árni segir þó ekkert liggja nákvæmlega fyrir um það hve miklir hagsmunir séu í húfi, hvort málið snerti milljónir eða milljarða.

„Þetta hefur tvímælalaust áhrif á stöðu þeirra fyrirtækja sem eru með erlend lán, eða lánasamninga sem hafa verið dæmdir sem innlend lán," segir Árni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×