Erlent

Fundu einstaka eftirlíkingu af Monu Lisu

Fundist hefur einstök eftirlíking af hinu þekkta málverki Mona Lisa eftir Leonardo da Vinci en þessi eftirlíking hefur hangið til sýnis á listasafninu Prado í Madríd á Spáni árum saman án þess að listfræðingar gerðu sér grein fyrir mikilvægi hennar.

Það sem er einstakt við þessa eftirlíkingu er að hún er máluð af einum af nemendum da Vinci á þeim tíma sem meistarinn sjálfur málaði Monu Lisu. Við hefðbundna skoðun á eftirlíkingunni nýlega kom í ljós að dökkur bakgrunnurinn í henni var málaður síðar en hann hylur nákvæmlega sama landslag og er að finna í upprunalega verkinu.

Við nánari rannsókn kom síðan í ljós að eftirlíkingin var máluð í upphafi sautjándu aldar eins og fyrirmyndin. Er hér því um að ræða fyrstu eftirlíkinguna af Monu Lisu en þó nokkrar slíkar hafa síðan verið gerðar í gegnum aldirnar.

Í fréttum erlendra fjölmiðla um málið kemur einnig fram að eftirlíking þessi er í betra ásigkomulagi en fyrirmyndin og að Mona Lisa lítur út fyrir að vera yngri en hún er á verki da Vinci.

Talið er að annaðhvort Andrea Salai eða Francesco Melzi hafi málað eftirlíkinguna en þeir voru meðal fremstu nemenda da Vinci.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×