Erlent

Deilt um minnsta mann í heimi - segist vera fjórum sentimetrum minni

Breki Logason skrifar
Junrey Balawing.
Junrey Balawing.
Nú deila menn um hvort hinn filipeyski Junrey Balawing sé í raun minnsti maður í heimi. Rúmlega sjötugur Nepali heldur því nefnilega fram að hann sé fimmtíu og sex sentimetra hár, eða tæpum fjórum sentimetrum minni en Junrey.

Fjölskylda hins sjötíu og tveggja ára gamla Chandra Bahadur Dangi hélt þessu fram á blaðamannafundi í heimabæ Dangi í gær.

Dangi sem segist vera 56 sentimetra hár hefur biðlað til forsvarsmanna heimsmetabókar Guinness um að mæla sig.

Hann er sá fjórði í röð sex bræðra og vegur einungis tólf kíló. Hann mun vera mjög heilsuhraustur og segist aldrei hafa tekið inn lyf eða farið á spítala. Fjölskyldumeðlimir lilla segja hann afbragðs flautuleikara en hann mun einnig leika listavel á Madal, sem er einhverskonar nepölsk tromma. Hann kann einnig mjög vel við að hreyfa sig við taktfasta tónlist.

Ástæða þess að Dangi er að skjótast fram á sjónarsviðið nú, rúmlega sjötugur, mun vera sú að hann býr í mjög einangruðu þorpi í heimalandinu og hefur lítinn aðgang að nútímatækni.

Núverandi minnsti maður í heimi samkvæmt heimsmetabókinni er fyrrnefndur Junrey sem er 59,93 sentimetrar en hann bætti met annars Nepala fyrir skömmu en sá er 67 sentimetra hár.

Ritstjóri heimsmetabókar Guinness hefur tjáð sig í ljósi þessa nýju tíðinda og sagt forsvarsmenn bókarinnar ætla að heimsækja Dangi til heimalandsins. Þar verður hann mældur og gengið úr skugga um hvort þessar staðhæfingar lilla eigi við rök að styðjast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×