Viðskipti innlent

Skuldatryggingaálag Íslands fer lækkandi

Skuldatryggingaálag Íslands er 292 punktar og hefur verið samfellt undir 300 punktum síðan 20. janúar síðastliðinn. Um síðustu áramót stóð það í 317 punktum en á sama tíma í fyrra var það 279 punktar.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að nokkur lækkun hafi orðið á skuldatryggingarálagi á ríki Vestur-Evrópu síðasta mánuðinn. Þannig var skuldatryggingarálagið að meðaltali 260 punktar í lok dags í gær á meðal ríkja Vestur-Evrópu, þá að Grikklandi undanskildu, en hafði verið um 277 punktar um síðustu áramót.

Eins og fyrr segir er skuldatryggingarálag Grikklands undanskilið, enda bjagar það þennan samanburð verulega. Má hér nefna að í lok dags í gær stóð það samkvæmt gögnum úr Bloomberg-gagnvarveitunni í 6.121 punktum en um síðustu áramót var það 8.786 punktar. Þrátt fyrir að skuldatryggingarálagið hafa lækkað nokkuð er skuldatryggingarálagið á ríki Vestur Evrópu mun hærra en það var á sama tíma í fyrra, en þá var það rúmir 140 punktar og má augljóslega rekja það til þeirra miklu hræringa sem verið hafa í efnahagsástandi margra ríkja þar, enda mörg þeirra staðið í ströngu á tímabilinu vegna skuldakreppunnar á evrusvæðinu.

Skuldatryggingarálagið hefur lækkað á öllum ríkjum Vestur Evrópu frá áramótum talið að Portúgal undanskildu. Þannig stóð álagið á Portúgal í lok dags í gær í 1.358 punktum en hafði verið um 1.082 um síðustu áramót, og er álag þess næsthæst í þessum samanburði, þ.e. á eftir Grikklandi. Þriðja hæsta áhættuálagið er á Írland, sem stóð í lok dags í gær í 590 punktum en það er 134 punktum neðar en það var um síðustu áramót.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×