Erlent

Hundrað manns fastir um borð í ferju

Tvöhundruð fjörutíu og sjö var bjargað í gær.
Tvöhundruð fjörutíu og sjö var bjargað í gær. Mynd/AP
Óttast er að yfir hundrað manns séu fastir um borð í ferju sem sökk undan ströndum Nýju Gíneu í aftakaveðri í gær.

Þrjúhundruð og fimmtíu farþegar voru um borð í ferjunni ásamt tólf manna áhöfn þegar hún sökk í gærmorgun. Tvöhundruð fjörutíu og sjö var bjargað í gær og einum í morgun. Rúmlega hundrað og tíu er enn saknað og vinna björgunarmenn nú í kappi við tímann í þeirri von um að finna einhvern á lífi.

Talið er að margir séu enn fastir um borð í ferjunni sem nú er djúpt niðri á hafsbotni en Nurur Rahman, sem stjórnar leitinni, telur fólkið þó ekki af.

Aftakaveður á svæðinu hefur gert leitarmönnum erfitt fyrir og tilkynnti Peter O'Neil, forsætisráðherra Nýju-Geníu, að leitinni yrði fljótlega slegið á frest vegna þessa en henni verður haldið áfram á morgun.

Yfirvöld hafa ekki viljað staðfesta hvort einhverjir hafi fundist látnir.

Ferjan var á siglingu milli bæjanna Kimbe og Lae þegar hún sendi frá sér neyðarkall. Talið er að slæmt veður á þessum slóðum hafi valdið því að ferjan sökk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×