Viðskipti innlent

Töpuðu 1,5 milljónum á hvert mannsbarn

Lífeyrissjóðirnir töpuðu 480 milljörðum króna á bankahruninu. Rúmlega helmingur er vegna fjárfestinga í tveimur félagasamstæðum og tengdum aðilum, en skýrsla rannsóknarnefndar lífeyrissjóðanna var kynnt í dag.

Skýrsla rannsóknarnefndar lífeyrissjóðanna var kynnt á Grand hóteli kl. tvö í dag. Nefndina skipuðu þeir Hrafn Bragason, fyrrverandi hæstaréttardómari, Héðinn Eyjólfsson, viðskiptafræðingur og Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor í heimspeki.

Fram kom á glærukynningu að heildartap lífeyrissjóðanna í hruninu næmi tæplega 480 milljörðum króna. Þar af er rúmlega helmingur vegna fjárfestinga og hlutabréfa í Baugs Group og Exista.

Heildartapið nemur um einni og hálfri milljón króna á hvert mannsbarn í landinu miðað við mannfjölda 1. janúar 2011.

Lífeyrissjóðirnir töpuðu 77 milljörðum á fjárfestingum og hlutabréfum í Baugi Group og tengdum aðilum, en inni í þeirri fjárhæð eru 47 milljarðar vegna Glitnis.

Þá töpuðu þeir 170 milljörðum á Exista samstæðunni og tengdum aðilum. Samtals nemur tap vegna þessara tveggja samstæðna 248 milljörðum króna.

Hrafn segir að lífeyrissjóðirnir hafi átt lögum samkvæmt að fjárfesta í skráðum félögum. „Auk þess er eignarhaldið alltaf að breytast og færast á færra hendur þannig að þetta endar svona," segir Hrafn.

Í skýrslunni er hörð gagnrýni á einstaka lífeyrissjóði. Þar segir m.a í 4. bindi um fjárfestingar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna í gjaldeyristryggingum, sem eru í raun afleiðuviðskipti að það hafi ekki samræmst langtímasjónarmiðum í rekstri sjóðsins að taka jafn mikla áhættu og raun bar vitni við kaup á þessum tryggingum. Nefndin fjallaði líka um siðareglur lífeyrissjóðanna, vegna gjafa- og boðsferða, en sárafáir lífeyrisssjóðir höfðu sett sér slíkar reglur fyrir hrunið. Nefndin safnaði hins vegar ekki gögnum um boðsferðirnar.

„Áður en siðareglurnar eru settar þá hefur ýmislegt gengið á og gerst sem við vitum ekki um og sem hugsanlega hefur verið frá þeirra sjónarmiði núna ljóður á þeirra ráði," segir Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor í heimspeki og nefndarmaður.

Smelltu á hlekkinn „Horfa á myndskeið með frétt" til að sjá blaðamannafundinn í heild.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×