Erlent

Milljónir af leðurblökum hafa drepist í Bandaríkjunum

Leðurblökur í milljónatali hafa dáið vegna sýkingar í norðaustanverðum Bandaríkjunum og hluta af Kanada.

Sýking þessi gengur undir nafninu hvítnefs heilkennið. Hún stafar frá sveppagróðri í leðurblökuhellum sem leggst á leðurblökurnar á veturna. Afleiðingarnar eru að leðurblökurnar vakna af dvala sínum mánuðum of snemma, fljúga út í veturinn og svelta þar til bana eða frjósa í hel.

Hvítnefs varð fyrst vart í New York ríki fyrir sex árum síðan en sýkingin hefur nú breiðst út til 16 annarra ríkja í Bandaríkjunum og fjögurra héraða í Kanada. Hin algenga brúna leðurblaka er við það að deyja út vegna sýkingarinnar en þessa leðurblöku mátti áður finna víða í norðanverðum Bandaríkjunum og suðurhluta Kanada.

Vísindamenn áætla að á bilinu 5 til 7 milljónir leðurblaka hafi drepist af þessari sýkingu hingað til. Meðal aðgerða sem gripið hefur verið til er að loka öllum aðgangi að þeim leðurblökuhellum sem finnast á opinberu landi í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×