Erlent

Srí Lanka gefur heiminum sýn

Tæplega 900.000 íbúar landsins hafa ákveðið að gefa augu sín.
Tæplega 900.000 íbúar landsins hafa ákveðið að gefa augu sín. mynd/AP
Þrátt fyrir að borgarastyrjöld hafi geisað í rúman aldarfjórðung á Srí Lanka er landið einn stærsti útflutningsaðili hornhimna í veröldinni. Íbúar landsins gefa rúmlega 3.000 augu á hverju ári.

Samkvæmt Samtökum augngjafa á Srí Lanka hafa hornhimnur verið gefnar til 57 landa víðsvegar um heiminn. Flestar hafa þó farið til Pakistan.

Framboð á hornhimnum er svo mikið á Srí Lanka að yfirvöld neyddust til að stofna sérstakan augna-banka á síðast ári. Bankinn var alfarið fjármagnaður með framlögum frá trúarsamtökum og einstaklingum.

mynd/AP
Tæplega 900.000 íbúar landsins hafa ákveðið að gefa augu sín en um 20 milljón manns búa á Srí Lanka. Ástæðuna fyrir þessum mikla áhuga á augngjöfum má rekja til Dr. Hudson Silva.

Um miðbik síðustu aldar hóf Silva þjóðarátak á Srí Lanka og hvatti íbúa landsins til að gefa augu sín. Að auki krafðist hann þess að yfirvöld þar í landi kæmu upp sómasamlegri aðstöðu fyrir ígræðslu augna.

Átakið skilaði svo sannarlega árangri því hvergi eru augngjafir jafn algengar og á Srí Lanka.

mynd/AP
Dr. Sisira Liyanage, stjórnarformaður Augnspítalans í Colombo, sagði AP fréttastofunni að það væri gríðarlegur áhugi fyrir augngjöfum. „Fólk forvitnast jafnvel um hvort að það verði að vera látið þegar það gefur augu sín. Mörg vilja gefa annað auga sitt og segjast ekki hafa not fyrir tvö augu þegar næsta manneskja er blind."

Frá því að augnígræðslur hófust á Srí Lanka hafa rúmlega 40.000 einstaklingar fengið ný augu eða hornhimnur. Um 20.000 augu hafa verið send til Pakistan og á milli 8.000 til 6.000 augu hafa verið send til Egyptalands og Japan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×