Erlent

Fórnarlamb mannræningja: "Ég ætla að bíða eftir mömmu"

Calysta Cordova
Calysta Cordova mynd/ABC
Níu ára gömul stúlka í Bandaríkjunum hefur fengið mikið lof fyrir að klekkja á mannræningja sínum. Hún hringdi sjálf á neyðarlínuna og sagði mannræningjanum síðan að snerta sig ekki.

Tilkynnt var um hvarf Calystu Cordova á fimmtudaginn síðastliðinn. Rannsókn lögreglunnar í Colorado Springs leiddi í ljós að hún hafði verið numin á brott er hún gekk heim úr skólanum.

Daginn eftir að Calystu hafði verið rænt barst lögreglunni síðan símtal. Calysta sagði lögreglunni að hún væri á bensínstöð rétt fyrir utan bæinn og að mannræninginn væri með henni.

Eftir að lögreglan mætti á staðinn var ræninginn á bak og burt. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni var Calysta mikið marin á andliti og afar skelkuð.

Calysta sagði að bíll mannræningjans hefði bilað og að hann hafi leitað á bensínstöð eftir hjálp. Calysta hljóp þá á undan mannræningjanum og tókst að hringja í lögregluna. Vitni á bensínstöðina segja að mannræninginn hafi skipað Calystu að koma með sér - en hún var á öðru máli.

„Ég fer ekki neitt með þér. Ég ætla að bíða eftir mömmu minni."

Mannræninginn flúði á brott en lögreglan náði honum stuttu seinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×