Erlent

Hetjudáðir og hugrekki um borð í Costa Concordia

Frá strandstað á Ítalíu í dag.
Frá strandstað á Ítalíu í dag. mynd/AFP
Þegar tæpar tvær vikur eru liðnar frá strandi skemmtiferðaskipsins Costa Concordia hafa nú sögur af hugrekki og hetjudáðum tekið að berast. Hetjuskapurinn stangast á við hegðun skipstjórans Francesco Schettino.

Schettino hefur hlotið nafnbótina „Kapteinn Heigull" af heimspressunni. Hann hefur verið ákærður fyrir manndráp og situr nú í stofufangelsi. Schettino heldur því fram að hann hafi hrasað á þilfari Costa Concordia og fallið í björgunarbát. Hann fylgdist með björgunaraðgerðum eftir að hann komi að landi í Toskana.

Á meðan Schettino fylgdist með úr landi var annar skipstjóri að samræma björgunaraðgerðir um borð í Concordia. Roberto Bosio er skipstjóri á systurskipi Concordia. Hann var farþegi í Costa Concordia þegar skipið strandaði. Hann hóf tæmingu skipsins 13 mínútum áður en Schettino skipaði farþegum að yfirgefa skipið. „Ég er engin hetja," sagði Bosio. „Við einfaldlega gerðum það sem þurfti að gera."

Manrico Giampedroni, 57 ára bryti, hjálpaði hundruðum farþega í björgunarbáta. Hann þræddi síðan neðri dekk skipsins og leitaði farþega. Í iðrum skipsins hrasaði Giampedroni og fótbrotnaði. Honum var bjargað 36 klukkustundum seinna.

Örlögin voru Tomás Alberto Costilla Mendoza þó ekki hliðholl. Hann var hreinsitæknir í skipinu og aðstoðaði farþega við að komast í björgunarbáta. Hann féll fyrir borð og lést úr ofkælingu.

Skemmtikrafturinn Michele Ghiani hjálpaði 23 börnum að finna foreldra sína eftir að skipið strandaði.

Ungverski fiðluleikarinn Sandor Feher hjálpaði nokkrum börnum í björgunarvesti. Hann hljóp síðan í káetu sína þar sem fiðlan hans var. Björgunarmenn fundu lík hans á 7. dekki Concordia.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×