Erlent

Fílahjörð syrgir látinn kálf

Fílahjörð í dýragarðinum í München safnaðist saman við lík kálfs sem lést í kjölfar hjartaáfalls. Hin þriggja mánaða Lola átti að gangast undir skurðaðgerð en lést skömmu áður.

Dýragarðsverðir ákváðu að skila Lolu til hjarðarinnar svo að móðir hennar fengi tækifæri á að kveðja hana. Hinir fílarnir virtust síðan votta virðingu sína með því að nugga rönum sínum við enni Lolu.

Dr. Andreas Knieriem, stjórnandi dýragarðsins, sagði að ástand Lolu hafi verið afar slæmt. Hún þjáðist af alvarlegum hjartagalla. Dýralæknar ætluðu að framkvæma byltingarkennda skurðaðgerð á Lolu en hún lést skyndilega á meðan aðgerðin var í undirbúningi.

Talið að fílar syrgji meðlimi hjarðar sinnar. Rannsóknir hafa jafnvel sýnt fram á að þeir votti fílum sem fallið hafa frá fyrir löngu virðingu sína.

Niðurstöður rannsóknar frá árinu 2005 gefa til kynna að sorg fíla svipi mjög til þeirrar sem mannfólkið upplifir. Fílar hópast reglulega í kringum látna fíla og snerta höfuð þeirra með rönum sínum.

Hægt er að sjá Lolu í fullu fjöri í myndbandinu hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×