Viðskipti innlent

Taldi sig enga heimild hafa til að grípa inn í starfsemi bankanna

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra telur sig enga heimild hafa haft til að grípa inn í starfsemi bankanna í aðdraganda hrunsins. Þá hafi aðgerðir til að flytja bankanna úr landi verið óraunhæfar. Þetta er á meðal þess sem Geir ætlar að nota í vörn sinni þegar málið verður tekið fyrir.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis kom saman í morgun til að fara yfir tillögu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, um að afturkalla ákæru á hendur Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra. Á fundinn mætti meðal annars Sigríður Friðjónsdóttir sem er saksóknari Alþingis sem sækir málið gegn Geir.

Á fundinum sagði hún klárt mál að Alþingi geti afturkallað ákæru á hendur Geir H. Haarde. Mikilvægt væri að hraða meðferð tilögunnar eins og kostur er þar sem aðalmeðferð í málinu á að hefjast 5. mars.

„Það er náttúrulega ekki svo sem þægilegt að vita kannski ekki alveg hvort að ákærandi í málinu, Alþingi, hvort að það sé meirihluti fyrir því að baki þingsályktuninni um að ákæra í málinu, hvort að það séu breyttar forsendur þar," segir Sigríður Friðjónsdóttir.

Verjandi Geirs hefur skilað inn í greinagerð til Landsdóms þar sem farið er yfir vörn Geirs í málinu. Í greinagerðinni sem fréttastofa hefur fengið, og ekki hefur verið birt áður, sést að hún byggist að miklu leyti á að Geir telji sig ekki hafa getað gert neitt í stöðunni.

Þannig hafi hann ekki haft lagaheimild til að grípa inn í starfsemi bankanna, sem voru orðnir mjög stórir fyrir efnahagshrunið. Aðgerðir til að minnka efnahagsreikning bankanna hafi verið óraunhæfar. Sömuleiðis aðgerðir til að að flytja bankana úr landi. Þá hafi bankakerfið ekki verið í stórfelldri hættu. Stór hluti málanna hafi heyrt undir annan ráðherra, viðskiptaráðherra, en ekki Geir. Í greinagerðinni kemur einnig fram að flutningur reikninganna yfir í dótturfélög hafi ekki verið á valdi Geirs og að neyðarlögin hafi skilað sínu en þau hafi að verulegu leyti afstýrt hættunni.

Formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd segir óvíst hvenær nefndin afgreiðir málið og hvort það takist áður en aðalmeðferð hefst. „Ég treysti því enn þá ekkert til í að segja neitt til um það mér finnst nú málið verða töluvert flóknara með hverjum deginum sem líður," segir Valgerður Bjarnadóttir.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×