Erlent

Ný rannsókn útskýrir vinsældir súpu við pestum og kvillum

Ný rannsókn á vegum Kyrrahafsháskólans í Kaliforníu sýnir fram á afhverju menn telja góða súpu enn vera allra meina bót við ýmsum kvillum og pestum, einkum kvefi og flensu.

Allt frá tólftu öld hafa læknar mælt með súpu til að berjast gegn kvefi og flensu. Á þeim tíma var um kjúklingasúpu að ræða en hún er þekkt í sögunni sem Gyðinga pensillín.

Rannsóknir hafa leitt í ljós að eggjahvítan í kjúklingakjöti vinnur gegn bólgumyndun og snefilefni í grænmetinu aðstoða við að byggja upp ónæmiskerfi líkamans, að því er segir í umfjöllun BBC um málið.

Þegar við verðum veik leitum við oft öryggis og skjóls í góðri súpu. Þetta er eðlilegt því súpu, seyði eða þunnan graut er auðvelt að melta og því eiga næringarefnin greiða leið út í líkamann.

Hin nýja rannsókn leiðir í ljós að bernskuminningar spilar hér einnig stórt hlutverk. Á fyrstu árum ævinnar leita börn öryggis og skjóls hjá mæðrum sínum en súpur minna mest á fæðuna á fyrstu árum barna enda er sú fæða yfirleitt í fljótandi formi. Því hafi súpur haldið vinsældum sínum sem allra meina bót við pestum og kvillum í gegnum aldirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×