Innlent

Andri Freyr: Ég er alltaf að segja Gunnu Dís að nota veikindadagana

Boði Logason skrifar
Andri Freyr og Gunna Dís stjórna saman þættinum Virkir morgnar á Rás 2. Gunna Dís fékk aðsvif í beinni útsendingu í kvöld þegar hún var spyrill í þættinum Gettu Betur á Rás 2.
Andri Freyr og Gunna Dís stjórna saman þættinum Virkir morgnar á Rás 2. Gunna Dís fékk aðsvif í beinni útsendingu í kvöld þegar hún var spyrill í þættinum Gettu Betur á Rás 2.
„Já það er helvítis álag á kerlingunni, ég er búinn að vera reyna að ná í hana," segir Andri Freyr Viðarsson, útvarpsmaður á Rás 2. En samstarfsmaður hans Guðrún Dís Emilsdóttir, betur þekkt sem Gunna Dís, fékk aðsvif í beinni útsendingu í kvöld þegar hún var spyrill í spurningakeppninni Gettu Betur.

Gunna Dís leysti Eddu Hermannsdóttur af sem spyrill í Gettu Betur. Hlustendur Rásar 2 heyrðu þegar að Gunna Dís var að lesa upp spurningu þegar skyndilega heyrðust miklir skruðningar og einhver í kringum hana sagði „Ó shit". Hlustendum var tilkynnt um að hlé yrði gert á útsendingunni og síðan tók Örn Úlfar Sævarsson, höfundur spurninga, að sér spyrlahlutverkið og tilkynnti að Gunna Dís hefði veikst.

Andri segir að það sé búið að vera mikið að gera hjá Gunnu Dís undanfarna daga og mikið álag sé á henni. Hann ætlar að leyfa Gunnu Dís að hvíla sig í fyrramálið þegar þáttur þeirra fer í loftið, en þau stjórna saman þættinum Virkir morgnar á Rás 2.

„Ég finn eitthvað út úr þessu, dreg einhvern með mér. Hún er svo vitlaus, ég er alltaf að segja henni að nota veikindadagana sína en hún hlustar aldrei á mig, hún þykist vera of góð fyrir það. Ég er alltaf að segja við hana að hún sé að gefa vinnu og það kemur heldur betur niður á henni núna," segir Andri í léttum tón.

Gunna Dís fór upp á spítala eftir atvikið og er hún ómeidd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×